Svandís Svavarsdóttir matvæla-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lagt fram drög að breytingum á reglugerð um fiskeldi, sem felur í sér stefnumörkun um að fiskeldisfyrirtæki greiði í auknum mæli fyrir nýtingu náttúruauðlinda og að einungis einn rekstraraðili í sjóeldi verði heimilaður í hverjum firði.

„Gjaldtaka í greininni endurspeglar að um er að ræða takmarkaða auðlind,” segir Svandís. „Það er grundvallaratriði að þeir sem hagnast á nýtingu náttúruauðlinda greiði fyrir það sanngjarnt verð. En það er ekki síður brýnt að setja okkur metnaðarfull og mælanleg markmið í umhverfismálum, ásamt því að setja okkur einnig tímaáætlun um hvernig og hvenær við náum þeim markmiðum.”

Drögin fela í sér stefnumótun til ársins 2040, ásamt framkvæmdaáætlun til fimm ára, þ.e.a.s. til ársins 2028. Áhersla er lögð á rannsóknir og eftirlit með fiskeldi til að tryggja að það standist ströngustu kröfur, auk þess sem reyna á að fyrirbyggja að greinin hafi neikvæð áhrif á umhverfið.

Lagt er til að leyfishafar greiði sanngjarnt gjald fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum og á það gjald að standa undir stjórnsýslu, rannsóknum og eftirliti með greininni, ásamt því að fjármagna nauðsynlega uppbyggingu innviða. Einnig er í drögunum tillögur um skiptingu tekna af gjaldtöku á milli ríkis og sveitarfélaga, til að tryggja að sveitarfélögin geti fjármagnað nauðsynlega uppbyggingu innviða og þjónustu sem tengist fiskeldinu og vexti þess hérlendis.

Í tillögunum er gert ráð fyrir að ekki fyrr en 2028 verði gefin út ný leyfi til fiskeldisframleiðslu á Vestfjörðum og Austfjörðum, umfram fyrirliggjandi leyfi sem hljóða upp á framleiðslu á 103 þúsund tonnum. Jafnframt er lagt til að endurskipulagningu eldisleyfa á báðum þessum svæðum verði lokið árið 2028, og að aðeins einn rekstraraðili verði heimilaður á hverjum firði eða hafsvæði.

Laxeldi er helsti drifkraftur vaxtar í fiskeldi seinustu árin. Heildarframleiðsla á Íslandi náði 43 þúsund tonnum árið 2022 og er gert ráð fyrir að hún fari yfir 60 þúsund tonn á yfirstandandi ári. Útflutningsverðmæti fiskeldis á Íslandi nam tæpum 49 milljörðum króna í fyrra, og má rekja meginhluta þeirrar fjárhæðar til laxeldis. Fyrir áratug var útflutningsverðmætið aðeins 5 milljarðar króna.

Bandaríska fyrirtækið Boston Consulting Group vann greiningu fyrir matvælaráðuneytið sem sýnir fram að útflutningsveðrmæti laxeldis á Íslandi gæti enn margfaldast á næstu tíu árum og jafnvel orðið á bilinu 140-430 milljarðar króna árið 2032.

Íslenska sjávarútvegssýningin (IceFish) verður haldin í Smáranum 18. til 20. september 2024 og er fullkominn vettvangur fyrir sérfræðinga á sviði atvinnuveiða og fiskeldis til að bera saman bækur sínar og fagna góðri afkomu í þessum atvinnugreinum. Athyglinni verður sérstaklega beint að vinnslu, virðisauka, aukaafurðum og vaxandi markaði fiskeldis, enda þróun þar hröð og einkar áhugaverð.

 

Salmon Cage

Salmon Cage