Engey er af nýrri kynslóð togara, sá fyrsti af þremur sem smíðaðir eru fyrir HB Granda hjá Celiktrans-skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Samherji og Fisk Seafood hafa svo alls látið smíða fjögur ný skip hjá Cemre-skipasmíðastöðinni.

Friðleifur ræddi aðeins um fyrstu ferð Engeyjar með sína nýju og ómönnuðu lest og sagði fimm daga veiðiferðina hafa hafist á miðunum suðvestan af Íslandi.

„Við byrjuðum á heimaslóð og veiddum karfa í tvo daga. Þaðan færðum við okkur á Vestfjarðamið og gekk vel að veiða bæði þorsk á Halamiðum og í Þverál. Það var smávegis af ufsa í aflanum en ekkert til að gera veður út af,“ sagði hann og bætti við að auk áhafnarinnar hefðu þrír tæknimenn frá Skaganum hf. verið um borð í ferðinni til að fylgjast með vinnslubúnaði og karaflutningskerfi sem fyrirtækið setti upp.

„Allt virkaði eins og til var ætlast. Örfá smávandamál komu fram en úr þeim var leyst hratt og örugglega. Sjálfvirka kerfið sem er raunverulegt nýmæli, virkaði fullkomlega eins og til var ætlast og það hefði varla getað verið betri aðstaða til meðferðar afla á aðalþilfari. Það tekur hins vegar nokkurn tíma að ná valdi á öllum tölvukerfum skipsins svo allt verði 100% rétt en við munum venjast því,“ sagði hann.

Engey er hagkvæmara í rekstri en eldri togarar HB Granda og Friðleifur Einarsson segist aðeins þurfa að taka eldsneyti aðra hverja ferð í stað hverrar ferðar eins og hann var vanur á sínum fyrri togara Ásbirni.