TVG Zimsen er í eigu Eimskips, hefur sérhæft sig í flutningaþjónustu af öllu tagi og er opinber samstarfsaðili Íslensku sjávarútvegssýningarinnar hvað vörustjórnun varðar. TVG Zimsen annast bæði flutninga til sýningarinnar og sér um búnað og sýningarmuni sem senda á til baka þegar sýningunni er lokið.

„Við höfum tekið þátt í IceFish um langa hríð en nú erum við í þriðja sinn opinber samstarfsaðili sýningarinnar sem er okkur mikið tilhlökkunarefni. Samstarf okkar hefur verið með ágætum og fer batnandi eftir því sem samvinnan gengur stöðugt liprara fyrir sig með reynslunni“, sagði Björn Einarsson, framkvæmdastjóri TVG Zimsen.

Fyrirtækið annast bæði flug- og sjóflutninga og færir sýnendum allt það sem þeir þarfnast á sýningarbásinn, hvort um er að ræða toghlera í fullri stærð, flökunarvél eða kassa með hönskum og stígvélum.

„Við flytjum hvað sem er að sýningarhöllinni í Smáranum og á bása sýnenda, auk þess sem við sjáum um alla tollafgreiðslu þegar sendingarnar koma til landsins. Við bjóðum jafnvel geymslur fyrir varninginn fyrir og eftir sýninguna“, sagði hann.

Það er ekki fyrir hvern sem er að annast allt það mikla vörumagn sem berst á sýninguna á þriggja ára fresti og sýningargestir fá hvorki að sjá þá stanslausu starfsemi sem á sér stað að tjaldabaki við undirbúning sýningarinnar né það langa verktímabil sem á undan fer.

„Það er árs verkefni að undirbúa okkur fyrir sýninguna og ganga úr skugga um að allt sé á sínum stað“, sagði hann líka og bætti við að sú mikla áskorun að raða saman öllum bitunum í þessu púsluspili sé verkefni sem starfsfólk TVG Zimsen geti alltaf ráðið við.

„Við hlökkum til þess að takast á við næstu sjávarútvegssýningu og höfum þegar hafið undirbúning fyrir hana en á nýju ári verður haft samband við sýnendur til þess að gera þeim grein fyrir þeim flutningakostum sem í boði eru til þess að flytja allt sem með þarf á IceFish,“ sagði Björn að lokum.