Verðlaunin gaf TM og komu þau í hlut Gunnars Þórðarsonar, Matís, og Albert Högnason, 3X Technology. Hugmyndin er ofurkæling á botnfiski niður í -0,7 °C og -1,5 °C í laxi. Með ofurkælingu er átt við að færa kæliorku inn í fiskvöðvann strax eftir veiðar/slátrun, þar sem innan við 20% af vatnsinnihaldi er fryst. Engar skemmdir verða á frumum vegna ískristallamyndunar og geymsluþol afurðar lengist í samanburði við hefðbundnar leiðir við kælingu á fiski. Ofurkælingin hefur þegar verið reynd um borð í einum íslenskum ísfisktogara sem var breytt í þessum tilgangi, þar sem óísaður fiskur er geymdur í lest við stöðugt hitastig sem er rétt neðan við núll gráður. Nokkur nýsmíðuð skip sem bætast í íslenska flotann á næsta ári verða einnig með þennan búnað. Mikil tækifæri geta legið í flutningi á ofurkældum ferskum fiski þar sem mikið sparast við að losna við ís í flutningskeðju, sérstaklega með flugi.

Önnur til þriðju verðlaun voru annars vegar veitt fyrir þróun á umhverfisvænu línuskipi sem Hafið – Öndvegissetur um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins – stendur að ásamt samstarfsaðilum og hins vegar þróun á hugmynd Árna Thoroddsen sem felst í því að strandveiðibátþjörkum er fjarstýrt frá landi eða móðurskipi á sjó til að stunda krókaveiðar á grunnmiðum.