Útgerðarfyrirtækin Ísfélagið, Síldarvinnslan og HB Grandi hafa öll fengið nýja togara til veiða á uppsjávarfiski síðustu árin og um áramót hefst afhending á mörgum nýjum botnfiskskipum.
Samherji, FISK Seafood, HB Grandi, Rammi, Gunnvör og VSV, auk dótturfyrirtækja Samherja í öðrum löndum, fjárfesta nú í nýjum botnfiskskipum en þau eru í smíðum í Tyrklandi, Noregi og Kína.

Skammt er síðan þrjú skip voru sjósett. Nýjasta skip Ramma, Sólberg, var sjósett hjá skipasmíðastöðinni í Tersan en því er ætlað að koma í stað hins 43 ára gamla skips Mánabergs og hins 36 ára gamla skips Sigurbjargar. Nýjasta skip Samherja, Björgúlfur var sjósett hjá skipasmíðastöðinni í Cemre og Akurey HB Granda rann lipurlega fram í Celiktrans í síðustu viku.
Sum nýju skipanna hafa hinn áberandi X-kinnung en sú útfærsla hefur verið mikið rædd innan sjávarútvegsins undanfarið og sýnist sitt hverjum.

Gert er ráð fyrir því að nýju skipin muni að umtalsverðu leyti koma í stað eldri skipa sem smíðuð voru á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þau veita langþráð tækifæri til þess að bæta orkunýtingu og hagnýta sér nýja kynslóð fiskvinnslubúnaðar um borð, þar með talið íslausa geymslukerfið sem Skaginn og 3X hafa þróað og verður um borð í öllum þremur nýjum skipum HB Granda, Engey, Viðey and Akurey.

Verið er að útbúa fyrsta skipið af þessum þremur við Cemre-skipasmíðastöðina í Tyrklandi en það er hannað af Nautic og búist er við því að Engey HB Granda verði fyrsta botnveiðiskipið af þessari nýju kynslóð til þess að koma til Íslands í lok þessa árs.