Wise er fastur sýnandi á Íslensku sjávarútvegssýningunni og býður fram kerfi byggð á grunni tækni frá Microsoft sem sérsniðin eru að þörfum bæði útgerðar og fiskvinnslu.

„Það er mér heiður að afhenda Wise verðlaunin sem Samstarfsaðili ársins á Íslandi 2017,“ sagði Ron Huddleston, aðstoðarforstjóri One Commercial Partner hjá Microsoft.

„Wise hefur fært sameiginlegum viðskiptavinum okkar framúrskarandi lausnir og þjónustu og er afbragðsgott dæmi um þá yfirburði sem við sjáum hjá bestu samstarfsaðilum okkar.“

Wise var valið úr hópi 2600 samstarfsfyrirtækja í 115 löndum en verðlaunin voru veitt í ýmsum flokkum. Wise fékk sérstakt hrós fyrir bæði nýsköpun sína og víðtæka sérfræðiþekkingu sem skilar lausnum á heimsvísu og samstarf sitt við Microsoft Iceland.

„Okkur er það mikill heiður að þiggja þessi verðlaun frá Microsoft,“ sagði Jón Heiðar Pálsson, sviðsstjóri sölu- og markaðssviðs Wise.

„Afburðagóður starfsmannahópur er lykillinn að velgengni og vexti Wise. Fyrirtækið veitir ráðgjöf á heimsvísu um hvernig þróa skuli og taka í notkun bæði stöðluð og sérsmíðuð kerfi fyrir umsýslu launa, bankastarfsemi, bókhalds, framleiðslustjórnunar sjávarfangs og kerfi fyrir héraðs- og sveitarstjórnir,“ hélt hann áfram. „Við leggjum aðaláherslu á Dynamics NAV og getum boðið sérsniðnar lausnir fyrir nær hvaða iðngrein sem er.“

Jón Heiðar Pálsson bætti við að fyrirtækið muni eins og ávallt kynna vörur sínar og þjónustu á íslensku sjávarútvegssýningunni í ár.

„Sú sýning er ein sú allra mikilvægasta sem Wise tekur þátt í og hún færir okkur einstakt tækifæri til að hitta viðskiptavini okkar og ræða kröfur þeirra við óformlegar aðstæður,“ sagði hann að lokum.