Markmið WSI er að kynna framlag kvenna í sjávarútvegi og er þetta í fyrsta sinn sem kvennasamtök eru með bás á sjávarútvegssýningu.

“Ástæðan fyrir því að við ákváðum að hefja kynningarstarfið á Íslandi er tvíþætt: Í fyrsta lagi er  íslenskur sjávarútvegur mjög kraftmikill og í öðru lagi er Ísland í fararbroddi þegar kemur að jafnrétti kynjanna,” segir Marie Christine Montfort, ein af stofnendum samtakanna. Hún segir að með því að vera með bás á Íslensku sjávarútvegssýningunni vilji samtökin vekja athygli á þeirri staðreynd að vinnuframlag kvenna sé sjávarútveginum nauðsynlegt þótt oft sé það ósýnilegt og framhjá því horft af hálfu þeirra sem ákvarðanirnar taka. Íslenska sjávarútvegssýningin sé því kjörinn vettvangur til þess að láta í sér heyra á opinberum vettvangi í fyrsta sinn.

Marie bendir á að þótt annar hver starfsmaður í sjávarútvegi sé kona þá séu konur í meirihluta þeirra sem lægstu launin fá og í minnst metnu störfunum og mjög fáar í stjórnunarstöðum.

“Sögur um konur í sjávarútvegi eru sjaldan sagðar. Nauðsynlegt er að auka vitund fólks um hlutverk kvenna í þessari atvinnugrein og meta að verðleikum þau verðmæti sem þær skapa,” segir hún. “Þótt við viðurkennum að miklar framfarir hafi orðið er ennþá mikið verk að vinna til að auka skilning fólks, bæði í opinberum fyrirtækjum og einkafyrirtækjum, á málefnum kynjanna og stuðla að jafnrétti karla og kvenna á vinnumarkaðnum. WSI hefur ákveðið að vinna að framgangi þessara mála.