Framkvæmdastjóri nýja fyrirtækisins er  Haraldur Árnason sem áður starfaði hjá Hampiðjunni í yfir tuttugu ár. Að hinu nýja  fyrirtæki standa Skaginn 3X, Nautic , Kælismiðjan Frost, Brimrún , Naust Marine og Verkfræðistofan Skipatækni sem öll hafa á undanförnum árum komið að hönnun, þróun, smíði og sölu á búnaði og skipum til veiða og vinnslu á sjávarfangi.

Haraldur sagði að markmiðið væri að bjóða útgerðum upp á heildarlausnir í hönnun skipa og útvegun tækjabúnaðar með það fyrir augum að hámarka afköst og árangur alveg frá byrjun. Þótt fyrirtækið sé nýstofnað státa þeir aðilar sem að því standa af langri reynslu á þessu sviði. Öll hafa fyrirtækin komið við sögu skipanna sem HB Grandi og Samherji hafa verið með í smíðum í skipasmíðastöðvum Celiktrans og Cemre í Tyrklandi síðustu misserin.

 „Íslenskur sjávarútvegur og iðnaður hafa ávallt verið í fararbroddi hvað þekkingu og tækni varðar og samstarf þessara fyrirtækja getur styrkt þá stöðu enn frekar“ segir Finnbogi Jónsson, sem er stjórnarformaður hins nýja fyrirtækis.

Frekari upplýsingar um Knarr Maritime má fá á sýningarbás B22 á Íslensku sjávarútvegssýningunni í haust.