„Á þessu ári tökum við þátt í Íslensku sjávarútvegssýningunni einkum vegna aukins áhuga á nýsmíðum fiskiskipa af hálfu útgerða á Íslandi og annars staðar við Norður-Atlantshaf,“ segir Ricardo Garcia sölustjóri skipasmíðastöðvarinnar. „Nú þegar eldsneytisverð er orðið stöðugra virðist vera vaxandi áhugi á að gera samninga um smíði nýrra skipa.“

Astilleros Armon, sem er í hópi fremstu skipasmíðastöðva á Spáni, rekur fjórar smíða- og viðgerðarstöðvar á Norður-Spáni. Stöðin hefur áratuga reynslu af smíði skipa af fjölbreyttasta tagi, frá tiltölulega litlum bátum til stórra togara og túnfisknótaskipa, auk flókinna vinnsluskipa og tæknivæddra rannsóknaskipa.

Nýjasta nýsmíði stöðvarinnar var frystitogarinn Ramoen sem Rolls-Royce hannaði og afhentur var norskri útgerð í lok síðasta árs, en skipin veiðir botnfisk í Barentshafi. Um borð er fyrsta vatnsskurðarvélin frá Völku sem komið er fyrir um borð í skipi. Ramoen er þannig frumkvöðull í því að  gera framleiðslu fiskafurða á sjó fjölbreyttari.

„Við komum úr sjávarútveginum og skipasmíðastöðin okkar hefur smíðað meira en 550 fiskiskip á fjórum áratugum,“ sagði Ricardo Garcia. „Við höfum einnig mikla reynslu af smíði aðstoðarskipa fyrir olíuiðnaðinn á hafi úti svo við erum vanir því að smíða eftir norrænum stöðlum.“