Stór hluti íslenska fiskiskipaflotans var í startholunum og tilbúinn að láta úr höfn þegar niðurstöður atkvæðagreiðslu sjómanna um nýjan kjarasamning voru tilkynntar 19. febrúar síðastiðinn. Mörg uppsjávarskipin héldu til veiða þegar saman kvöld.

Tvö af skipum Síldarvinnslunnar, Börkur og Beitir, voru á leið til hafnar með samtals 5.200 tonna afla innan við sólarhring eftir að verkfallinu lauk, og raunar hefur verið mokveiði alla tíð síðan.

Síðustu vikur loðnuvertíðarinnar einkennast oft af kapphlaupi við að ná að veiða leyfilegan kvóta áður en loðnan leggst til hrygningar og drepst. Á þessu síðasta stigi á æviskeiði loðnunnar er kappkostað að kreista úr henni hrognin, verðmætustu afurðina, en einmitt þá er veðrið gjarnan rysjótt og hamlar veiðum. Þessi tími er því jafnan þrunginn spennu um það hvernig úr rætist.

Í upphafi þessarar loðnuvertíðar var sú staða uppi að lítið mældist af loðnu og því var gefinn út lítill kvóti. Lokamæling í febrúar sýndi hins vegar mun stærri stofn en áður var talið og var kvótinn því aukinn verulega. Skömmu síðar lauk sjómannaverkfallinu og því var skammur tími til stefnu til að ná kvótanum. Hvort það tekst er ekki vitað þegar þetta er skrifað.