Þýska fyrirtækið Beckhoff Automation sýnir á IceFish 2024, en það er leiðandi á heimsvísu á sviði sjálfvirkni og tölvustýrðrar stýritækni. Beckhoff Automation hefur í yfir tvo áratugi þróað stýritækni fyrir umbúðaiðnaðinn með það að markmiði að hámarka bæði framleiðsluferil hans og tækjakost. Tækni fyrirtækisins er m.a. notuð í snyrtivöruiðnaði, lyfjageiranum, við framleiðslu lækningatækja og í matar- og drykkjavöruiðnaði. Á meðal viðskiptavina þess er danski umbúðaframleiðandinn Beck Pack Systems A/S., en hann útvegar um 95% þeirra umbúða sem notuð eru utan um sjávarafurðir um allan heim.

 

Hluti af lausnum Beck Pack er sjálfvirkt eftirlit áður en umbúðirnar fara úr verksmiðjunum. Meðal annars er um að ræða búnað sem grannskoðar ríflega 200 þúsund umbúðir á dag, áður en þær eru fluttar til fiskiðjuvera um víða veröld.

Það kann að hljóma einfalt að framleiða umbúðir utan um sjávarafurðir: Pappír er hlutaður niður í arkir með skurðlínum og húðaður með vaxlagi til að vernda niðurskornu flökin, sem fiskvinnslurnar pakka síðan í afurðum sínum og frysta. Beck Pack vinnur hins vegar stöðugt að því hörðum höndum að bæta gæði vörunnar og draga úr sóun, til þess að halda sér í fararbroddi í harðri samkeppni á markaðinum.

Beck Pack Systems, sem staðsett er í bænum Rønne á eyjunni Borgundarhólmi, hefur í yfir hálfa öld útvegað umbúðir til framleiðanda, sérstaklega í sjávarútvegi, og var á meðal fyrstu fyrirtækja á sínu sviði til að innleiða samþættar sjónlausnir í framleiðsluferlinu. Til að tryggja forskot á samkeppnismarkaði verða gæðin að haldast í hámarki og það er á þessu stigi málsins sem sjónskönnunartækni frá Graphic Robotics ApS og Beckhoff Automation kemur til sögunnar.

Pappírinn verður að vera fullkomlega klipptur og brotalínur með 100% nákvæmni. Einnig verður innanverð vaxhúðun að vera svo vel úr garði gerð að hægt sé að ábyrgjast ferskleika sjávarafurðanna og jafnvel að geyma þær í frysti í nokkur ár. Fullbúnar umbúðir, sem nefnast „Beck liner”, eru síðan settar saman í fiskvinnslufyrirtækjunum vítt og breitt um heiminn, eða í sjálfum veiðiskipunum, þegar búið er að veiða aflann og vinna.

„Við framleiðum hundruðir þúsunda umbúða á hverjum degi og því er útilokað að skoða þær allar með mannsauganu. Vision-tæknin gerir okkur kleift að gera það með sjálfvirkum hætti. Allur pappírinn er skannaður á alla kanta og gögnum safnað í rauntíma. Þessi aðferð eykur gæðin og færir okkur nær óaðfinnanlegri afurð. Það færir okkur hugarró að vita að nánast engar misfellur eru á þeim umbúðum sem frá okkur fara og við erum stöðugt að draga úr efnissóun,” segir Lars Krusell, framkvæmdastjóri gæðastjórnunar og sjálfbærni hjá Beck Pack Systems A/S og Beck Pack Systems Inc.

Tæknibúnaðurinn sem er notaður við þessa sjálfvirku skoðun var þróaður hjá Graphic Robotics í samstarfi við Beckhoff Automation, sem útvegar PLC og TwinCAT hugbúnaðinn fyrir þennan eftirlitsþátt, þar á meðal TwinCAT Vision, auk annarrar ráðgjafar.

„Það hefur verið mikilvægt fyrir okkur að finna tækjabúnað sem getur bæði skannað pappírinn og skilgreint gæði hans á örskotsstundu. Við getum þetta nú því að Vision er hluti af gæðaeftirlitinu. Vélin yfirfer fjórar umbúðir á sekúndu og þetta er einstaklega háþróað ferli sem felur í sér ofurhraða myndvinnslu og nákvæmni í rauntíma. Niðurstaðan er frábær,” segir Bo Folkmann, framleiðslustjóri hjá Beck Pack Systems A/S.

„Þessi sjálfvirka sjónskoðun, verkefni sem við reiknum með að ljúki á þessu ári, gerir allt ferlið við framleiðslu umbúða miklu háþróaðra og gerir okkur kleift að finna hugsanlega galla í ferlinu og koma þeim fyrir kattarnef. Við erum með lungann af heimsmarkaðinum og fáum ekki margar kvartanir um „Beck-liners”, þannig að það er ekki rótin að þessu verkefni, heldur fyrst og fremst metnaðurinn til að gera sífellt betur. Vision tryggir einfaldlega að öll „Beck-liners”-framleiðslan sé grannskoðuð með tilliti til hugsanlegra yfirborðsgalla og flokkuð fyrir pökkun og frekari dreifingu um heiminn. Við erum á sama tíma að halda áfram að sjálfvirknivæða framleiðsluna okkar til að lágmarka sóun í öllu ferlinu, frá upphafi til enda,” segir Lars Krusell.

 

Beckhoff Automation verður með sýningarbásinn G52 á IceFish-sýningunni og býður þar alla gesti hjartanlega velkomna.

 

BeckPack (68)

BeckPack (68)

 

[BeckPack.jpg] Caption: TwinCAT Vision er háþróuð samþætt myndvinnslulausn fyrir skoðun og gæðaeftirlit á framleiðsluvörum. Stillingar og forritun eru unnin í aðgengilegu PLC umhverfi. Einnig eru allar stýriaðgerðir sem tengjast myndvinnslu samstilltar í rauntíma.