Reykjanesklasinn hefur yfirtekið húsnæði Norðuráls í Helguvík, en þeirri byggingu, sem ætluð var fyrir álframleiðslu var aldrei lokið eins og kunnugt er, en mun nú öðlast nýtt líf þegar henni verður breytt í Grænan iðngarð. Byggingin verður stærsta rými fyrir klasastarfsemi á Íslandi.

Íslenski sjávarklasinn, stuðningsaðili Íslensku sjávarútvegssýningarinnar, IceFish 2024, er einn af stofnendum Reykjanesklasans sem stendur að þessari framkvæmd. Rýmið er samtals um 25 þúsund fermetrar og er möguleiki á að tvöfalda núverandi gólfpláss með því að bæta við aukahæð. Græni iðngarðurinn er ákjósanlega staðsettur fyrir starfsemi af þessu tagi; aðeins tvær mínútur frá Helguvíkurhöfn, í tíu mínútna fjarlægð frá Keflavíkurflugvelli, í 45 mínútna fjarlægð frá miðborg Reykjavíkur og já, aðeins í um 40 mínútna fjarlægð frá Íslensku sjávarútvegssýningunni 2024.

Græni iðngarðurinn mun njóta nálægðarinnar við Auðlindagarðinn á Reykjanesi, en þar hafa öflug og spennandi fyrirtæki kappkostað að nýta sér auðlindir svæðisins, þar á meðal jarðvarma, kalt vatn, gufu, endurnýjanlega orku og koldíoxíð.

Íslenski sjávarklasinn í Reykjavík hýsir nú rúmlega 60 fyrirtæki og hefur tekist að verða á alþjóðavísu glæsilegur fulltrúi þess markmiðs íslensks sjávarútvegs að ná fram 100% nýtingu sjávarfangs og útrýma sóun í greininni. Tilgangur Græna iðngarðsins er að útvíkka þá hugmyndafræði til ýmissa annarra atvinnugreina.

Með tilkomu Græna iðngarðsins tífaldast það rými sem fyrirtækjum undir regnhlíf Íslenska sjávarklasans býðst fyrir starfsemi sína og til verður vettvangur fyrir metnaðarfull fyrirtæki sem hafa áhuga á virkri þátttöku í hringrásarhagkerfinu.

Langtímamarkmiðið með Græna iðngarðinum er að byggja brýr á milli þeirra aðila sem starfa á sviði vatns, orku og fæðu á Íslandi, og skapa tækifæri fyrir fyrirtækin sem mynda klasann til að styðja hvert annað í að búa til verðmæti úr því hráefni sem annars færi forgörðum.

Með Græna iðngarðinum mun vinnurými á vegum Íslenska sjávarklasans tífaldast.

Image