Norska laxeldisfyrirtækið Nova Sea AS hefur innleitt nýja skýjalausn frá Maritech Purchase & Sales, lausn sem er sérsniðin til að styðja við alla ferla í alþjóðlegri virðiskeðju sjávarafurða.

Skýjalausn Maritech Purchase & Sales nýtist allt frá framleiðslu og skipulagningu pantana, til sölu, innheimtu og útflutnings, og er nú þegar komin góð reynsla á hana hjá sjávarútvegsfyrirtækjum víðsvegar í Evrópu og Norður-Ameríku. Þar á meðal eru bæði alþjóðleg stórfyrirtæki og lítil sem meðalstór fyrirtæki á sviði fiskeldis og sjávarútvegs. Hugbúnaðurinn hentar einnig vel heildsölum í sjávarútvegi og söluaðilum sem höndla ekki með eigin framleiðslu.

„Eftir að hafa gaumgæft alla möguleika í boði var skýjalausn Maritech sá kostur sem okkur leist langbest á,” segir Geir Johan Birkeland, forstöðumaður tæknideildar Nova Sea. „Við höldum áfram stafrænni vegferð okkar með því að taka í notkun skýjalausn sem eykur hagræðingu í öllum okkar ferlum.”

„Við unnum náið með Maritech í undirbúningi þessara breytinga á seinasta ári og höfum ákaflega góða reynslu af því samstarfi. Bæði fyrirtækin leggja áherslu á nýsköpun og gæðastjórnun, hvetja hvort annað áfram í þeirri þróun og bæta hvort annað stöðugt. Nýja skýjalausnin mun auka skilvirkni í ýmsum deildum innan fyrirtækisins okkar, allt frá samhæfingu til sölu, reikninga og bókhalds. Við fáum styrkari stjórn og yfirsýn á verkferlum, ásamt því að skapa samlegðaráhrif umfram þá þætti sem tengjast verkefninu beint.”

„Nova Sea er ákaflega tæknidrifið fyrirtæki með ríka áherslu á nýsköpun, og við erum afar stolt af því að það hafi valið okkur til samstarfs,” segir Klas Vangen, framkvæmdastjóri sölu hjá Maritech. „Nova Sea framleiðir úrvals vörur, leggur mikla áherslu á sjálfbærni og tækni og teymið þeirra er einstaklega hæft. Við höfum lært mikið af þeim í gegnum samstarf okkar undanfarna mánuði. Sérþekking Nova Sea og stöðugar umbætur í framleiðslu og rekstri, skipta sköpum fyrir velgengni þess á undanförnum árum, auk þess að hafa verulegt gildi fyrir samstarf fyrirtækjanna. Við hlökkum til að ná nýjum markmiðum í sameiningu og gleðjumst yfir að geta hjálpað Nova Sea að halda áfram að vaxa.”

Nova Sea á að fullu 33,33 leyfi til laxeldis í Noregi og að auki fjögur leyfi í sameiningu með öðrum. Fyrirtækið rekur fiskeldisstöðvar meðfram endilangri Helgeland-strandlengjunni og flytur út lax til kaupenda um heim allan.

Maritech hefur verið dyggur og öflugur sýnandi á IceFish um margra ára skeið og hefur nú þegar bókað sýningarpláss á Íslensku sjávarútvegssýninguna 2024. Fyrirtækið útvegar sjávarútveginum hátæknilegan hugbúnað og þróar stafrænar lausnir til að stjórna, rekja, greina og tölvuvæða í gjörvallri virðiskeðju fiskvinnslu og fiskeldis, hvort sem um er að ræða framleiðslu, vinnslu, pökkun, innflutning/útflutning, gæðastjórnun, vörustjórnun eða birgðaeftirlit. Fyrirtækið er í eigu Broodstock Capital og hefur 125 starfsmenn á Íslandi, Norður-Ameríku og Noregi.

 

Klas Vangen

Klas Vangen

GeirJohanBirkeland

GeirJohanBirkeland