Opnun fjórtundu Íslensku sjávarútvegssýningarinnar 18. september 2024 markar 40 ára afmæli viðburðar sem hefur frá upphafi verið í forystuhlutverki á sínu sviði í íslenskum sjávarútvegi. Sýningin í ár verður sömuleiðis sú fjölmennasta frá upphafi. Stórafmælið verður hið glæsilegasta og öllu tjaldað til.

Eins og fastagestir sýningarinnar vita mætavel hefur sýningin þróast mjög á seinustu fjórum áratugum. Með því að vera sífellt vakandi fyrir endurbótum og nýjungum hefur IceFish gert bæði gestum og sýnendum kleift að fylgjast grannt með framförum í vöruþróun og þjónustu fyrir sjávarútveg, fiskeldi og sjávarréttaframleiðslu. Þannig hafa þátttakendur getað fylgst með því hvernig þessar greinar hafa stöðugt fært í sig veðrið og náð nýjum markmiðum í framleiðni, skilvirkni og sjálfbærni. IceFish hefur einnig fyrir löngu fest sig í sessi sem mikilvægur fundarstaður fyrir hagsmunaaðila í sjávarútvegi frá öllum heimshornum.

IceFish 2024 í september verður haldin í glæsilegri sýningaraðstöðu í Smáranum í Kópavogi eins og seinustu sýningar, en fyrsta sýningin 1984 var haldin í Laugardalshöll. Mercator Media skipuleggur IceFish og hefur gert um árabil, en fyrsta sýningin fyrir fjörutíu árum var á vegum fyrirtækisins ITF (Industrial and Tradefairs International Limited), sem fyrirtækið Reed Exhibitions yfirtók nokkrum árum síðar. Í því skyni að koma til móts við aukinn vöxt sýningarinnar og nútímakröfur var ákveðið að flytja sýninguna í Smárann árið 1999, eða fyrir aldarfjórðungi. Á nýjum sýningarstað fengu sýnendur mun meira rými til að athafna sig, þjóna gestum og viðskiptavinum, semja um viðskipti og miðla þeirri innsýn og dýrmætu þekkingu sem þeir hafa fram að færa.

Það endurspeglar mikilvægi IceFish í gegnum tíðina að mörg fyrirtæki hafa sýnt þar frá upphafi, þar á meðal Marel, Hampiðjan og Sæplast. Mörg önnur fyrirtæki má nefna sem hafa verið okkur samferða í fjörutíu ár, t.d. Eimskip, Olís, Baader, Atlas, Kæling, Scanmar og Style að ógleymdum Fiskifréttum, auk þess sem danska útflutningsráðið hefur frá upphafi skipulagt danska þjóðarskálann.

Seinasta IceFish-sýning var haldin í júní 2022, en sú tímasetning var valin fyrst og fremst vegna þess að þá var nýbúið að aflétta takmörkunum vegna kóvid. Núna á afmælisárinu er IceFish þó komið aftur á sinn hefðbundna sýningartíma í september, skömmu eftir úthlutun aflamarks fyrir fiskveiðiárið 2024/2025. Og ekki aðeins er sýningin á sínum óskatíma heldur verða um 500 sýnendur/vörumerki í ár frá Íslandi og vítt og breitt úr heiminum, samanborið við um 400 sýnendur/vörumerki á seinustu sýningu. Það er því ákaflega margt að hlakka til! Á meðal þess sem er að vænta á sýningunni í september eru þjóðarskálar frá Færeyjum og Noregi, auk fyrrnefnds þjóðarskála Danmerkur.

IceFish 2024 býður líka velkomin fjörutíu ný fyrirtæki sem ekki hafa sýnt hjá okkur áður og hlakkar til að veita þeim umgjörð og stuðning til að sýna vörur sínar, þjónustu og lausnir. Það er til marks um vaxandi mikilvægi sýningarinnar á alþjóðavettvangi að nýir sýnendur koma frá alla vega tíu mismunandi þjóðríkjum, þar á meðal Suður-Afríku, Tyrklandi, Þýskalandi og Ítalíu.

Nokkur íslensk fyrirtæki eru einnig að þreyta frumraun sína á IceFish í ár, sem endurspeglar vel hversu mikilvægur þessi viðburður er fyrir sýnendur, ekki síst upprennandi fyrirtæki sem vilja hasla sér völl í sjávarútvegi, hvort sem er á vettvangi veiða, vinnslu, fiskeldis, aukaafurða eða sjávarréttaframleiðslu.

Reikna má með að um 12 þúsund manns heimsæki IceFish og viðburði sem sýningunni tengjast í september nk. Þar á meðal eru fyrirtækjastefnumótin vinsælu, Íslensku sjávarútvegsverðlaunin, sem verða nú afhent í níunda skipti þeim aðilum sem skara fram úr í íslenskum og alþjóðlegum sjávarútvegi, og síðast en ekki síst nýtt sýningarsvæði sem tekið verður í notkun. Að ógleymdri Fish Waste for Profit-ráðstefnunni sem verður haldin í fimmta skipti í haust, og kafar sem fyrr ofan í það nýjasta og merkasta sem er að gerast í fullvinnslu sjávarafurða til að tryggja 100% nýtingu þeirra. Þessi geysivinsæla ráðstefna verður haldin á Hilton Nordica í Reykjavík.

Árið 1984 opnaði þáverandi sjávarútvegsráðherra, Halldór Ásgrímsson, fyrstu Íslensku sjávarútvegssýninguna og það er vel við hæfi að núverandi ráðherra þess málaflokks, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, mun opna 40 ára afmælissýninguna í september. Einnig verður bæjarstjóri Kópavogs, Ásdís Kristjánsdóttir, viðstödd og margir fleiri virðulegir gestir sem tengjast sjávarútvegi á Íslandi.

Mercator Media hlakkar til að bjóða alla hagsmunaaðila í sjávarútvegi hjartanlega velkomna á IceFish 2024 og fagna því með þeim að Íslenska sjávarútvegssýningin, IceFish, er 40 ára og aldrei betri. Það stefnir allt í frábæra afmælissýningu!

 

Icefish-OldPhotos-38ca92be745ce93c

Icefish-OldPhotos-38ca92be745ce93c