Alls var magn landaðs afla á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 um 1.1 milljón tonn, sem er 4% samdráttur frá sama tímabili árið á undan, að því er fram kemur í samantekt Hagstofu Íslands. Þrátt fyrir þennan samdrátt var söluvirði landaðs afla tæplega 154,5 milljarðar króna, sem er 3% hækkun frá árinu á undan, eða tæplega 5 milljarðar króna. Botnfiskaflinn á fyrstu níu mánuðum síðasta árs nam alls rúmum 298 þúsund tonnum, eða 10% minna en árið áður, og verðmætið dróst saman um 7%, í alls 94,6 milljarða króna. Þorskafli nam tæpum 160 þúsund tonnum, sem er 13% minni afli en árið áður, og sölutekjur voru 59,6 milljarðar, sem er 6% samdráttur frá sama tímabili 2022.

En það sem gerir gæfumuninn í hærra heildarsöluvirði á milli ára er að á sama tíma skiluðu um 48 þúsund tonn af ýsu tæplega 14 milljörðum króna, rúm 32 þúsund tonn af ufsa skiluðu 8,2 milljörðum króna og rúm 30 þúsund tonn af karfa skiluðu 8,2 milljörðum í söluverðmæti. Flatfiskafli tímabilsins jókst um fimmtán prósent að magni, fór upp í rúm 17 þúsund tonn, og skilaði alls 10,1 milljarði króna, sem er 27% hækkun. Skelfisksafli dróst saman um 2% en skilaði 1% meira í aflaverðmæti, eða einum milljarði króna.

Þrátt fyrir að kolmunnaaflinn hafi aukist um 45%, dróst uppsjávaraflinn í heild sinni saman um 3% og var alls tæp 796 þúsund tonn. Í krónum og aurum talið jókst verðmætið hins vegar um 23% og var alls tæpir 49 milljarðar króna. Hlutur kolmunnans er drjúgur af þeirri upphæð, eða 8,3 milljarðar króna, sem er 52% hækkun frá sama tímabili árið áður. Loðnuafli flotans fyrstu níu mánuðina 2023 var tæplega 326 þúsund tonn, sem er 27% minni afli en árið áður og verðmætið 19 milljarðar, sem er 3% samdráttur. Í sama flokki jókst síldarafli um 22% og nam alls tæpum 100 þúsund tonnum, að verðmæti 9,1 milljarður króna, en makrílafli jókst um 7% að magni og yfir 30% að verðmæti, og var söluvirði alls 12,6 milljarðar króna.

Gert er ráð fyrir að helstu lykilaðilar í íslenskum sjávarútvegi mæti og styðji IceFish 2024 í september næst komandi.

5f7eb0a5-e0ad-4697-89a5-c1d7e293668d

5f7eb0a5-e0ad-4697-89a5-c1d7e293668d

Íslenski flotinn veiddi tæplega 231 þúsund tonn af kolmunna á fyrstu níu mánuðum seinasta árs, og var aflaverðmæti hans 8,3 milljarðar króna.