Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hitti í gær á Sjávarútvegssýningunni 2022 Javier Lopez de Lacalle, framkvæmdastjóra Foro Maritimo Vasco, sem er Sjávarsetur Baskalands, óhagnaðardrifin samtök fyrirtækja, félaga, banka, rannsóknarmiðstöðva og háskóla. 

Hafrannsóknarstofnun bíður nú með eftirvæntingu eftir nýju hafrannsóknarskipi, en fyrr á þessu ári var samið um smíðina við spænsku skipasmíðastöðina Astilleros Armón, sem er eitt af aðildarfyrirtækjum Sjávarseturs Baska. 

Hrepptu samninginn fyrir 4,8 milljarða 

Skipið verður 70 metrar á lengd og tólf metrar á breidd. Forhönnun var í höndum Skipasýnar, en unnið hefur verið að hönnun og síðan útboðsferli í um þrjú ár. Skipið verður smíðað í Astilleros Armón-skipasmíðastöðinni í Vigo á Spáni. Fyrirtækið bauð 33,45 milljónir evra í smíðina, jafnvirði 4,8 milljarða íslenskra króna. Astilleros Armón var ein þriggja spænskra skipasmíðastöðva sem buðu í smíðina. 

Undirbúningsferlið hófst árið 2018 þegar Alþingi veitti sjávarútvegsráðuneytinu heimild til þess að hefja undirbúning á kaupum nýs skips fyrir Hafrannsóknarstofnun, til að leysa af hólmi rannsóknarskipið Bjarna Sæmundsson sem hefur staðið sína plikt með miklum sóma í sex áratugi. Svandís Svavarsdótir, matvælaráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, og Laudelino Alperi Baragano frá Astilleros Armón, undirrituðu samning um smíði skipsins í marsmánuði sl. Stöðin á að afhenda skipið haustið 2024.Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hitti í gær á Sjávarútvegssýningunni 2022 Javier Lopez de Lacalle, framkvæmdastjóra Foro Maritimo Vasco, sem er Sjávarsetur Baskalands, óhagnaðardrifin samtök fyrirtækja, félaga, banka, rannsóknarmiðstöðva og háskóla