Íslenski fiskiskipaflotinn fær að veiða meiri þorsk, ýsu og aðra hvítfiskstegundir á fiskveiðiárinu 2023/2024 og fylgir úthlutun aflamarks hjá Fiskistofu að mestu leyti ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar í þeim efnum.

Samhliða hóflegri aukningu á leyfilegu aflamarki þorsks í 209.194 tonn, má veiða umtalsvert meira magn af ýsu og ufsa á vertíðinni sem hófst 1. september síðast liðinn, en heildaraflamarkið hækkar í 74.711 tonn og 48.927 tonn. Einnig má veiða aukið magn af gullkarfa og grálúðu en aflamarkið er 36.462 tonn og 13.463 tonn.

Í uppsjávarflokki hefur síldarkvóti verið aukinn milli ára í 87.634 tonn, en aflamark í úthafsrækju hækkar í 5.022 tonn.

Hafrannsóknarstofnun lét þess getið í ráðgjafarskýrslu sinni til stjórnvalda í júní sl., að aflamark þorsks gæti aukist í ljósi þess að heildarlífmassi þorsks hefði aukist, borið saman við seinasta ár. Stofnunin gerir einnig ráð fyrir að lífmassinn aukist á næstu tveimur til þremur árum, samfara því að 2019 og 2020 árgangarnir bætast að fullu við hann, en þeir árgangar eru taldir vera yfir meðallag að stærð. Stofnunin gerir einnig ráð fyrir að heildarlífmassi ýsu muni aukast á næstu tveimur árum, þar sem árgangarnir frá 2019-2021 eru einnig yfir meðallagi að stærð.

Fiskifréttir greindu frá því fyrir skömmu að fimmtíu stærstu útgerðarfyrirtækin á Íslandi fá 91,3% af úthlutuðu aflamarki að þessu sinni. Það hlutfall hækkar frá í fyrra þegar það nam 90,1%. Fimm stærstu útgerðarfyrirtækin fá 35,8% af úthlutuðu aflamarki, sem er talsverð hækkun frá því í fyrra þegar hlutfallið var 33%.

Brim hf. fær mestu úthlutunina til sinna skipa, eða 10,44% af heildinni, næst kemur Ísfélag hf. með 7% en Samherji Ísland ehf., sem var í öðru sæti á síðasta fiskveiðiári, er nú í þriðja sæti með 6,93%. Í næstu sætum koma FISK-Seafood ehf. með 6,14% og Þorbjörn hf. með 5,33%.

Þau fimmtíu fyrirtæki sem hafa mestan þorskveiðikvóta eru með tæplega 150.000 tonna heildarúthlutun. Samherji fær þar mest, eða 12.400 tonn, Brim fær 12.000 tonn, Ísfélagið fær 11.000 tonn, FISH-Seafood fær 9.360 tonn, Vísir fær tæp 9.000 tonn, Þorbjörn fær 8.600 tonn og Skinney-Þinganes fær 7.435 tonn.

 

Cod-is-the-most-important-species