Alvar ehf. er einn af sýnendum á IceFish 2024. Alvar er öflugt fyrirtæki sem hefur um árbil framleitt svo kölluð þokukerfi, sjálfvirkar sótthreinsunarlausnir fyrir sjávarútveg, með tækni sem er nú vel þekkt og nýtt víðsvegar hérlendis og erlendis.

Þokukerfi fyrirtækisins stuðla að 80- 90% minnkun á notkun vatns og kemískra sótthreinsiefna við sótthreinsun og stuðlar þar með að umhverfisvænni framleiðslu.

Í matvælaiðnaði er þróunin almennt að innleiða sjálfvirkni og flókinn vélabúnað. Þar sem þessi kerfi eru mörg hver lokuð eða hálf-lokuð, getur verið erfitt að þrífa þau og sótthreinsa. Fyrir vikið getur skapast vistkerfi í kerfunum sem örvar vöxt á bakteríugróðri vegna hærra hitastigs.

Til að takast á við þessi vandamál þróaði fyrirtækið ALVAR Mist Focus S-10 árið 2022, búnað sem setur sótthreinsiefni í vélbúnað og á svæði sem útsett er fyrir óhreinindum. Þessi lausn á vegum Alvar ehf. hefur fengið fyrirtaks viðtökur og var m.a. tilnefnd til verðlaunanna FoodTech Award 2022 á FoodTech Expo í Danmörku.

Mist Focus S-10 hefur þó þær takmarkanir að treysta verður á að vatnsþrýstingur innanhúss sé fullnægjandi og búnaðurinn getur aðeins dreift ákveðnu magni af úða á eina til tvær stórar vélar, eða á smærri áhættusvæði allt að 200 fermetrum. Alvar vinnur því nú að þróun Mist Focus S-20, sem gert er ráð fyrir að komi á markaðinn síðar á þessu ári.

Mist Focus S-20 mun geta sótthreinsað nokkrar vélar samtímis, án þess að takmarkast af vatnsþrýstingi innanhúss, þar sem það er útbúið eigin dælubúnaði. Þessi þokulausn mun einnig geta sótthreinsað smærri báta, til dæmis krókabáta, sem eru allt að 400 fermetrar að flatarmáli.

Forsvarsmenn Alvar ehf. benda á að þessi nýjung mun gefa smærri skipum kost á hagkvæmri aðferð til að hámarka matvælaöryggi sitt, án þess að þurfa að setja upp eitt af stærri kerfum fyrirtækisins, kerfi sem eru hönnuð fyrir vinnslustöðvar og stóra verksmiðjutogara.

Áformað er að Mist Focus S-20 muni innihalda fimm lítra af óblönduðu sótthreinsiefni, en slíkt magn ætti að endast í 5-6 mánuði að meðaltali.

Flexicut

Flexicut

Hér má sjá innan í FlexiCut-vél, fyrir og eftir að Mist Focus S-10 er komið fyrir í henni