Nýja kerfið er fyrsta skref þessa íslenska hátæknifyrirtækis út fyrir hvítfiskvinnsluna og er sérstaklega hannað til þess að fjarlægja beingarð úr laxaflökum. Notuð er röntgentækni til að gera nákvæma myndgreiningu í þrívídd, sem gerir mögulegt að staðsetja beinin og vatnskurðarvélin getur síðan með hallastillingum skorið og skammtað bitana til að ná hámarksárangri og fylgt þar nákvæmum útlínum beggja vegna beingarðsins.

Lykilþáttur í þessu kerfi er að það getur unnið laxinn fyrir dauðastirðnun og þar með dregið úr þörf fyrir geymslurými, ásamt því að lengja geymslulíf fisksins þar sem hægt er að fjarlægja beingarðinn strax eftir flökun. Aukinn sveigjanleiki vatnskurðarvélanna gerir mönnum einnig kleift að framleiða nýjar skammtagerðir.

„Við erum spennt fyrir þeim möguleikum sem þetta opnar eftir að Valka kynnti laxaskömmtunarvélina og þegar við mætum á IceFish á næsta ári til að sýna búnaðinn þá reiknum við með að hafa verið með hann í notkun í nokkurn tíma,“ sagði Ágúst Sigurðarson, markaðsstjóri Völku.

Hann tók fram að IceFish hafi ávallt reynst góður vettvangur fyrir búnaðinn frá Völku.

„Við hlökkum til þess að halda innreið okkar í laxavinnslugeirann – og við munum sýna laxaskömmtunarkerfið á IceFish, rétt eins og við höfum gert þar með hvítfiskbúnaðinn okkar á fyrri sýningum. Þannig að við vonumst til þess að þetta veki athygli erlendra laxvinnslufyrirtækja á sýningunni.“

Ef þú hefur áhuga á að sýna, styrkja, koma eða tala á IceFish 2020, hringdu þá í +44 01329 825 335 eða sendu tölvupóst á info@icefish.is.