Nýja Sólbergið sem smíðað var í Tersan skipasmíðastöðinni í Tyrklandi er fullkomnasta fiskiskip sinnar tegundar í íslenska flotanum. Það kemur í stað tveggja eldri togara, Mánabergs sem smíðað var á Spáni árið 1972 og Sigurbjargar sem smíðuð var á Íslandi árið 1987.

Sólberg er 79,80 metra langt og 15,4 metra breitt og hönnin er Skipsteknisk ST-116 XL. Rúm er fyrir 38 menn í áhöfn auk sjúkraklefa.

Vinnsluþilfarið er með búnaði frá Optimar og þar er m.a. tölvustýrð vatnsskurðarvél frá Völku. Tækjabúnaður er bæði til flakavinnslu og heilfrystingar. Framleiðslugetan á sólarhring er 75 tonn með tveimur lóðréttum plötufrystum og lausfrystibúnaði. Fiskúrgangur er unninn í fiskimjölsverksmiðju frá Héðni sem er um borð.

Tersan skipasmíðastöðin hefur frá árinu 2013 afhent þrettán ný fiskiskip, þar af tíu frystitogara. Nú eru tveir frystitogarar til viðbótar í smíðum, hannaðir af Skipstekninsk, og verða þeir afhentir á þessu ári.