„Íslenska sjávarútvegssýningin hefur verið æðisleg í alla staði. Andrúmsloftið er frábært, öll umgjörðin glæsileg og reynslan verið afskaplega jákvæð fyrir starfsmenn Sæplasts,” segir Heiðrún Villa Ingudóttir hjá Sæplasti.

Fyrirtækið kynnti á sýningunni nýjung í matvælaframleiðslu og endurvinnsluiðnaðinum. Sæplast PE/PUR ker á hjólum henta vel við meðhöndlun á ferskum og þurrkuðum matvörum, og eru hönnuð og mótuð til að þola erfiðustu aðstæður, þar á meðal þá harkalegu meðferð sem er algeng í sjávarútvegi. Rennislétt yfirborð kerjanna auðveldar þrif og eykur matvælaöryggi til mikilla muna.

Þess má geta að umsvif Sæplasts, sem teygja sig nú þegar vítt og breitt um heiminn, hafa nýverið styrksts verulega í sjávarútvegi í Marokkó og lengra suður á bóginn.