Skip Síldarvinnslustöðvarinnar, Beitir NK-123, var að landa tæpum 1300 tonnum af makríl sem veiddist í alþjóðlegri lögsögu, um svipað leyti og annað skip fyrirtækisins, Börkur NK-122, hóf veiðar á sömu slóðum í gærmorgun. Í kjölfarið veiðir Bjarni Ólafsson AK-70 á þessum miðum. Kristinn Snæbjörnsson, fyrsti stýrimaður á Beiti, segir að lítt hafi aflast í eystra horni umræddra miða, en þegar haldið var lengra frá norskri lögsögu hittu þeir á hárréttan stað og mokuðu upp makríli.

Tvö af uppsjávarskipum HB Granda hafa aflað vel á svipuðum slóðum og segir Róbert Axelsson, skipstjóri Venus að veiði hafi verið með miklum ágætum. „Bæði skip hafa farið tvo túra í Smuguna og það hefur gengið vel að ná í skammtinn fyrir vinnsluna. Í fyrri túrnum okkar vorum við innan við sólarhring að fá rúmlega 1.000 tonn og við vorum með svipað magn í seinni túrnum.“ Eftir góða veiði skall á bræla og að henni lokinni tók nokkurn tíma að finna makrílinn aftur.

Skipin landa á Vopnafirði og segir Róbert fiskinn hafa verið í háum gæðaflokki. Hann gerir ráð fyrir að næstu tveir túrar verði líka á makríl en að þeim loknum verði haldið á síldveiðar.