Útgerðartæknihópur Útflutningsráðs Danmerkur hefur um langa hríð stöðugt orðið meira áberandi á Íslensku sjávarútvegssýningunni og sýning næsta árs verður þar engin undantekning. Gert er ráð fyrir því að umtalsverður fjöldi danskra fyrirtækja með sérþekkingu á allt frá kælingu og vélbúnaði til veiðarfæra verði með í danska sýningarbásnum.

„Við lítum svo á að þátttaka í Íslensku sjávarútvegssýningunni sé besti fáanlegi vettvangurinn fyrir danska birgja að koma á framfæri vörum sínum, lausnum og þekkingu og ná sambandi við nýja tengiliði og þá sem koma að ákvarðanatöku,“ sagði Martin Winkel, formaður Útgerðartæknihóps Danmerkur og hann bætti því við að IceFish væri afar mikilvægur vettvangur til að kynna danska þekkingu og framleiðslu á sviði atvinnufiskveiða og vinnslu og að ljóst væri að þátttaka Dana verði tvímælalaust umfangsmikil.

Búist er við því að danski sýningarbásinn verði mun stærri en undanfarin ár en það má rekja til aukins áhuga danskra fyrirtækja á þátttöku í Íslensku sjávarútvegssýningunni 2017. „Útgerðartæknihópur Danmerkur stendur enn á ný fyrir dönskum sýningarbási á IceFish 2017 í þeim tilgangi að styðja fleiri dönsk fyrirtæki til þess að nýta sér möguleika og tækfæri í sjávarútvegi á Íslandi og Norður-Atlantshafssvæðinu öllu“, sagði hann.

„Fyrirtækin fá hvert um sig betra tækifæri til þess að kynna sig og vörur sínar fyrir bæði íslenska markaðnum og alþjóðlegum hópi viðskiptavina á sýningunni með því að taka þátt í danska sýningarbásnum og sýna þar við hlið annarra danskra fyrirtækja. Í íslenska fiskveiðiflotanum eru rúmlega 1600 skráð fiskiskip og bátar sem landa nær 12,5 milljónum tonna árlega en íslenski fiskveiðiflotinn er álitinn vera einn sá allra fullkomnasti, nýtískulegasti og skilvirkasti fiskiskipafloti heims þar sem bæði skipstjórar og útgerðarmenn afla sér reglubundið nýjustu tækni og þekkingu.“