HB Grandi lét smíða tvö uppsjávarskip hjá Celiktrans skipasmíðastöðinni í Tyrklandi í stað þriggja eldri skipa sem síðan hafa verið seld, eitt til Noregs og tvö til annarrar íslenskrar útgerðar. Í framhaldi af þessu var samið um smíði á þremur nýjum botnfisktogurum, einnig hjá Celiktrans. Fyrstur þeirra, Engey RE, kom til Íslands í lok síðasta árs og hefur síðan legið við bryggju á Akranesi þar sem Skaginn 3X hefur verið að koma fyrir fullkomnum búnaði á vinnsludekkinu.

Áætlað er að Engey RE haldi í fyrstu veiðiferð sína í þessari viku. Skipið er hið fyrsta af nýrri kynslóð ferskfisktogara sem Íslendingar hafa samið um smíði á í Tyrklandi. Í kjölfarið fylgja systurskipin Akurey og Viðey sem  HB Grandi er einnig með í smíðum. Nokkrar aðrar útgerðir eru einnig að endurnýja skip sín, þeirra á meðal Samherji sem tók nýlega á móti nýjum Kaldbaki EA frá Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Samherji á von á tveimur öðrum togurum sömu gerðar og FISK Seafood fær  einn.

Nú hefur HB Grandi tilkynnt ákvörðun sína um að fjárfesta enn meira í nýsmíðuðum skipum með því  að bjóða út nýjan 81 metra langan frystitogara með 1.000 tonna lestarrými. Rolls-Royce í Noregi hannar skipið. Gert er ráð fyrir að ákvörðun um smíðina liggi fyrir í maímánuði næstkomandi og að skipið  verði afhent í árslok 2019.