Starfsmenn Gullbergs tóku 3.600 tonn  af botnfiski til vinnslu á síðasta ári. Aflann veiddi togarinn Gullver, sem er í eigu Gullbergs, og togskipin Vestmannaey og Bergey, auk þess sem Síldarvinnsluskipin Bjartur og Barði lögðu vinnslunni til hráefni.

Að sögn Ómars Bogasonar hjá Gullbergi gekk vinnslan sérstaklega vel á síðasta ári þótt glíma hefði þurft við utanaðkomandi erfiðleika vegna sveiflna á mörkuðum og gengi sem gerðum það að verkum að afkoman varð lakari en annars hefði orðið.

Fiskvinnslu hjá Gullbergi lauk nokkrum dögum fyrir jól og sem stendur er óvíst hvenær hún getur hafist á ný þar sem skipaflotinn hefur stöðvast vegna verkfalls sjómanna. Eigi að síður horfa forráðamenn Gullbergs björtum augum til nýs árs og vona að verkfallið verði stutt.

Gullberg og Gullver hafa verið rekin sem sjálfstæð félög frá því að Síldarvinnslan í Neskaupstað eignaðist þau árið 2014 en hinn 1. janúar síðastliðinn var Gullberg sameinað Síldarvinnslunni í hagræðingarskyni. Engar breytingar eru fyrirhugaðar á starfsemi Gullbergs eða mannafla þess.