Það er orðin hefð að sýningin er formlega opnuð með fallbyssuskoti utan við Fífuna, og að þessu sinni var það Sigurður Ingi sem hleypti af skotinu, undir eftirliti Landhelgisgæslunnar.

Fjöldi manns sótti opnunarathöfnina í Smáraskóla og voru þar á meðal sendiherrar margra ríkja á Íslandi, fulltrúar hagsmunaaðila og sýndenda.

Marianne Rasmussen, framkvæmdastjóri sýningarinnar fyrir hönd Mercator Media þakkaði gesturm fyrir áframhaldandi stuðning við Íslensku sjávarútvegssýninguna. Hún rifjaði upp í ræðu sinni, þá erfiðu tíma sem Íslendingar stóðu frammi fyrir, árið 2011 þegar síðasta sýning var haldin. Og benti á að einmitt við þær aðstæður hefði kastljósið beinst mjög að undirstöðuatvinnugreininni – sjávarútvegi.

„Þremur árum síðar snúum við aftur til Íslands og þá blasir við að atvinnugreinin er á nýjan leik farin að fjárfesta og þegar liggur fyrir að íslensk fyrirtæki hafa pantað tólf fiskiskip sem er fjárfesting upp á 194 milljónir evra,“ sagði Marianne. „Ísland heldur áfram að vera í forystu í tækniþróun í veiðum og vinnslu.“

Marianne upplýsti gesti um að sýningin í ár væri uppseld og hver einasti sýningarbás væri í notkun. Aldrei hafa verið fleiri básar, eða 250 og hvorki fleiri né færri en 500 fyrirtæki sem sýna vörur og kynna þjónustu. Stöðugt fjölgar þeim þjóðum sem taka þátt og að þessu sinni eru fyrirtæki frá Kína, Þýskalandi, Tyrklandi, Japan og Bandaríkjunum og það í fyrsta skipti sem fulltrúar frá þessum löndum taka þátt í Islensku sjávarútvegssýningunni.

Marianne þakkað samstarfsaðilum um sýninguna, bæði bæjarstjórn Kópavogs og Sjávarútvegsráðuneytinu.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi vakti athygli gesta á því að þetta væri stærsta sjávarútvegssýningin til þessa og lýsti því yfir að hann væri stoltur í hlutverki gestgjafans fyrir hönd Kópavogs.

Sjávarútvegsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannesson sagði Íslensku sjávarútvegssýninguna mikilvægan viðburð. Hann benti á að þó svo að fyrirtæki kepptu á mörkuðum, væru samræður og samstarf á borð við það sem sýningin býður upp á, afar mikilvægar. „Við höfum öll sama markmið og það er að tryggja hámarksnýtingu fiskistofna og hráefnis og að sama skapi auka hagkvæmni og hagnað í sjávarútvegi um allan heim. Sá hluti af fiskinum sem áður var úrgangur er nú talinn verðmætur hlutur í sjávarútvegi. „ Sigurður Ingi benti jafnfram á að hann teldi að í framtíðinni ætti að vera hægt að auka enn frekar verðmæti hvers fisks úr sjó og jafnvel að tvöfalda það.

„Ég trúi því að þessi sýning gefi okkur sýn inn í þá framtíð,“ sagði Sigurður Ingi um leið og hann setti sýninguna.

Íslenska sjávarútvegssýningin stendur dagana 25. – 27. september. í Fífunni  í Kópavogi.