Atli Jósafatsson segir að fyrirtækið muni taka þátt í Íslensku sjávarútvegssýningunni í  ár og eigi jafnframt langa sögu að baki þegar kemur að þátttöku í sýningunni. „Við höfum verið þátttakendur alveg frá því að fyrsta sýningin var haldin árið 1984 og þá sem J. Hinriksson.“

Faðir Atla, Jósafat Hinriksson, var frumkvöðull í toghleragerð. Atli hefur nánast alla sína starfsævi unnið við smíði toghlera, fyrst í fjölskyldufyrirtækinu, en eftir að það skipti um hendur stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki, Polar Fishing Gear, með sína eigin gerðir toghlera. Þeirra á meðal eru Jupiter flottrollshlerar, Mercury og Hercules „semi-pelagic“ hlerar og svo Neptune botntrollshlerar. Fyrirtækið hefur nýlega tekið höndum saman við Thor doors og í farvatninu er framleiðsla á Poseidon fjarstýranlegum toghlerum.

„Íslenska sjávarútvegssýningin er okkur mikilvæg þar sem Ísland er heimamarkaður okkar, þannig að það segir sig sjálft að hér viljum við vera,“ segir Atli, en hann ver miklum tíma á sjávarútvegssýningum víða  um heim. „Íslenska sýningin er sérstök. Hún er þýðingarmikil fyrir íslenskan sjávarútveg í heild, ekki aðeins fyrir fyrirtækin sem bjóða atvinnugreininni vöru sína og þjónustu. Auk þess dregur hún til sín gesti frá öðrum löndum, einkum frá Norðurlöndum og öðrum ríkjum Norður-Evrópu. Þannig að við verðum mættir á  staðinn aftur í ár eins og við höfum gert allt frá árinu 1984,“ sagði Atli Jósafatsson.