Kerin frá Sæplasti voru byltingarkennt nýmæli í allri meðferð afla og gjörbreyttu starfsemi fiskvinnslunnar. Kössunum var ýtt til hliðar í lestum fiskveiðiskipa, allt frá stórum togurum til dagróðrarbáta, en kerin komu í þeirra stað. Á sama tíma gjörbreyttist vinnslan í landi þegar ker sem auðvelt var að þrífa og halda hreinum komu í stað kassa og beyglaðra málmíláta sem áður höfðu verið í notkun.

Víða um heim er heitið Sæplast orðið samheiti fiskikera. Sæplast á rót að rekja til Dalvíkur við Eyjafjörð og rekur þar enn öfluga starfsstöð en fyrirtækið var stofnað árið 1984, sama ár og fyrsta Íslenska sjávarútvegssýningin var haldin.

„Sæplast hefur tekið þátt í öllum sýningum Icefish frá upphafi árið 1984, sama ár og fyrirtækið var stofnað, og er í hópi allra mikilvægustu sýninga sem við tökum þátt í,“ sagði Daniel Niddam, sölu- og markaðsstjóri Sæplast Europe.

„Sýningin er einstakur vettvangur, bæði til þess að viðhalda viðskiptatengslum og afla sér nýrra sambanda,“ bætti hann við.

Eftir þátttöku sína í fyrstu sýningunni var Sæplast ekki lengi að koma sér á útflutningsmarkað með kerin, í fyrstu til Evrópulanda en svo víðar um heim eftir því sem menn komu auga á kosti þess að geyma aflann í kerum. Kerin frá Sæplasti eru nú framleidd á ýmsum stöðum víða um heim í ýmsum stærðum og gerðum, allt eftir því hver notkunin er. Það er sama hvar komið er og hvað veitt er eða ræktað af fiski, kerin frá Sæplasti er alls staðar að finna.